• Hús
    Jónshús

17.6.2016

Jónshús – 50 ára

 

Árið 1965 hafði íslenski stórkaupmaðurinn Carl Sæmundsen eignast húsið sem nú stendur við Austurvegg 12 (Øster Voldgade 12) í Kaupmannahöfn. Það var síðan í dag, fyrir 50 árum, þann 17. júní 1966, sem Carl afhenti Alþingi Íslands afsal fyrir húsinu, skuld- og kvaðalausu. Þar með hafði draumur Carls ræst, og húsið var orðið eign íslensku þjóðarinnar til minningar um hjónin Jón Sigurðsson og Ingibjörgu Einarsdóttur. 

Jón Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir.  LÍÞ.

Rúmri öld áður en húsið komst í eigu íslensku þjóðarinnar, í október árið 1852, fluttu hjónin Jón og Ingibjörg inn í íbúð á þriðju hæð hússins, sem þá stóð við Øster Voldgade nr. 486b, en er nú númer 12. Þar bjuggu þau til æviloka í desember árið 1879 . Heimili Jóns og Ingibjargar gegndi hlutverki nokkurs konar félagsmiðstöðvar og athvarfs fyrir Íslendinga í Kaupmannahöfn. Á meðal þeirra gekk það undir nafninu „við Austurvegg“ sem kom til vegna þess að húsið stóð gegnt borgarmúrum borgarinnar á þeim tíma, en þeir voru kallaðir Østervold, eða Austurveggur, á þeim tíma. Jón og Ingibjörg skutu skjólshúsi yfir fjölmarga landa sína sem áttu ekki í önnur hús að venda, en hjónin þóttu afar hjálpfús og góðhjörtuð. 

Á miðvikudagskvöldum var opið hús fyrir Íslendinga. Þetta voru viðburðir sem jafnan voru vel sóttir af ungum námsmönnum. Á slíkum kvöldstundum var rætt um það sem var efst á baugi hverju sinni og íslenskur matur var borinn á borð. Að máltíð lokinni var svo haldið inn í stofu þar sem reyktir voru vindlar og haldið áfram að skrafa. Samræðunum var vanalega haldið uppi af Jóni forseta sem var mikill húmoristi og óþrjótandi viskubrunnur um þjóðmál, íslenska sögu og menningu.

Eftir að húsið komst í eigu íslensku þjóðarinnar hefur verið rekstur í húsinu frá árinu 1970. Nú er þar rekið félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn, minningarsafn um Jón Sigurðsson og Ingibjörgu; þar er bókasafn, vinnuaðstaða fyrir íslensk fyrirtæki, skrifstofa umsjónarmanns og auk þess tvær íbúðir fyrir íslenska fræðimenn. Íslendingafélagið, íslenski söfnuðurinn, Félag íslenskra kvenna í atvinnulífinu, íslenskuskólinn, AA og fleiri hafa aðstöðu í húsinu sem er á fimm hæðum og verulega mikið notað af Íslendingum, allt árið um kring.