7.3.2012

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Dagskrá í Jónshúsi

Veitingasala Jónshúss opnar kl. 18.30, hægt er að kaupa bökur, salat og drykki. Dagskráin hefst kl. 19.30.

Að þessu sinni verður fjallað um fjölmiðla á Íslandi. Rætt verður um hlut kvenna í fréttum en ekki síður stöðu þeirra innan fjölmiðlanna:

„Eru fjölmiðlar spegill samfélagsins?“ Kristín Ása Einarsdóttir félagsfræðingur vann við fjölmiðla í rúm ellefu ár. Árið 2008 gerði hún úttekt á myndskreyttum fréttum á tveimur stærstu fréttavefmiðlunum, þ.e. http://www.mbl.is/ og http://www.visir.is/. Hún komst að þeirri niðurstöðu að aðeins væri fjallað um konur í 22,5% frétta og þá oftast í slúðurfréttum.

„Speglar valdsins“ er yfirskriftin á erindi Bjargar Evu Erlendsdóttur en hún var nýlega kjörin í stjórn Ríkisútvarpsins ohf. Björg Eva hefur yfirgripsmikla þekkingu á málum stofnunarinnar enda vann hún um áraraðir á fréttastofu útvarpsins, m.a. sem þingfréttaritari. Björg Eva starfar nú sem framkvæmdastjóri flokkahóps vinstri grænna og sósíalista hjá Norðurlandaráði.

Kynnir kvöldsins verður Drífa Snædal, nemi í Svíþjóð. Búast má við fjörugum umræðum og skemmtilegu spjalli að vanda.

Kvennakórinn tekur nokkur lög og sér um veitingasölu.

Sjáumst í Jónshúsi 8. mars!

Undirbúningsnefndin

Jónshús, Øster Voldgade 12 (skammt frá Østerport-lestarstöðinni)