11.4.2012

Einar Már Guðmundsson í Jónshúsi

Einar Már Guðmundsson mun veita Norrænu bókmenntaverðlaununum viðtöku í Stokkhólmi 11. apríl. Í tilefni þess kemur hann fram í Jónshúsi laugardagskvöldið 14. apríl. Dagskráin hefst kl. 20 en húsið opnar kl. 19:15.

Einar og verðlaunin

Norræn bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar hafa verið veitt árlega frá 1986. Þau þykja einhver mesti heiður sem norrænum rithöfundi getur hlotnast og eru gjarnan nefnd Norrænu Nóbelsverðlaunin eða „litli Nóbelinn“.

Einar Már Guðmundsson er þriðji Íslendingurinn sem hlýtur verðlaunin, Thor Vilhjálmsson fékk þau árið 1992 og Guðbergur Bergsson árið 2004.

Í Jónshúsi

Einar Már er fjölhæfur höfundur sem hefur m.a. sent frá sér skáldsögur, smásögur og ljóð en einnig hugleiðingar um samfélagsmál og menningu. Í fyrra kynnti hann nýjustu bók sína „Bankastræti núll” í Jónshúsi en að þessu sinni munum við líta yfir feril hans og ræða um helstu verkin við höfundinn, m.a. skáldsögurnar um lífið í Vogunum, verðlaunabókina „Englar alheimsins” og ekki síst ástarsöguna „Rimlar hugans”.

Léttar veitingar til sölu (einungis er tekið við reiðufé – næsti hraðbanki er á Østerport St.).

Aðgangur: 30 kr.

Bókmenntakvöldið er skipulagt af PILK (Projektgruppen Islandsk Litteratur i København) í samstarfi við Jónshús.