30.12.2014

Úthlutun fræðimannsíbúðar Húss Jóns Sigurðssonar 2015

Úthlutunarnefnd fræðimannsíbúðar, samkvæmt reglum um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, hefur lokið störfum og úthlutað íbúð fræðimanns á 4. hæð hússins árið 2015.
Nefndinni bárustu að þessu sinni umsóknir um dvöl til að sinna 42 verkefnum. Úthlutað var dvalartíma til að vinna að tíu verkefnum:

  • Árni Daníel Júlíusson til að vinna verkefni sem ber heitið „Investigation of the Long Term Sustainability of Human Ecodynamic Systems in Northern Iceland“.
  • Álfheiður Ingadóttir til að vinna verkefni um ævi og vísindastörf dr. Péturs M. Jónassonar prófessors.
  • Borgþór S. Kjærnested til að vinna verkefni um Kristján X., konung Íslands 1918-1944.
  • Guðlaugur R. Guðmundsson til að vinna verkefni um skólastarf á Íslandi í kaþólskum sið.
  • Guðmundur Hálfdánarson til að vinna að verkefni sem ber heitið „Denmark and the New North Atlantic“.
  • Hafdís H. Ólafsdóttir til að vinna verkefni um lagasnið þingskjala; samanburð á dönskum og íslenskum þingskjölum og lagahefð.
  • Hrafnhildur Ragnarsdóttir og Pétur Gunnarsson til að vinna annars vegar verkefni um þroska leik- og grunnskólabarna og hins vegar verkefni sem ber heitið „Örlagasaga tveggja íslenskra efnispilta á 19. öld“.
  • Sverrir Jakobsson til að vinna verkefni sem ber heitið „Á öld Sturlunga. Ísland 1096-1281“.
  • Sölvi Sveinsson til að vinna verkefni sem ber heitið „Endurfædd orð - og önnur dauð“.

Í úthlutunarnefndinni eiga sæti dr. Ágúst Einarsson, prófessor og fyrrverandi rektor við Háskólann á Bifröst, sem er formaður nefndarinnar, dr. Anna Soffía Hauksdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, og dr. Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Ritari nefndarinnar er Jörundur Kristjánsson, forstöðumaður skrifstofu forseta Alþingis.