Reglur um Hús Jóns Sigurðssonar forseta í Kaupmannahöfn

I. Um rekstur og notkun Jónshúss

1. gr.

Hús Jóns Sigurðssonar á Østervoldgade 12 í Kaupmannhöfn, „Jónshús“, sem er í eigu Alþingis, skal ávallt nýtt þannig að verði minningu Jóns Sigurðssonar forseta og eiginkonu hans, Ingibjargar Einarsdóttur, til sóma.

2. gr.

Húsrýminu skal ráðstafað sem hér segir:

  1. Í húsinu skal vera sýning til minningar um Jón Sigurðsson, líf hans og starf. Að öðru

    leyti skal með viðeigandi hætti minnt á ævi og starf Jóns og Ingibjargar konu hans í

    húsinu.

  2. Í húsinu skal vera aðstaða til menningar- og fræðslustarfsemi. Þar skal einnig eftir

    föngum veitt aðstaða til kynningar á landi og þjóð.

  3. Í húsinu skal vera aðstaða fyrir starfsemi félaga Íslendinga í Kaupmannahöfn og eftir

    atvikum annarra áhugafélaga og samtaka sem hafa fasta starfsemi í Danmörku.

  4. Í húsinu skulu vera tvær íbúðir og vinnuaðastaða fyrir fræðimenn, sbr. II. kafla þessara

    reglna.

  5. Í húsinu skal vera íbúð til afnota fyrir umsjónarmann hússins.

    3. gr.

Forseti Alþingis fer með æðsta vald í málefnum hússins, sbr. 9. gr. þingskapa. Forseti skal kynna forsætisnefnd rekstur hússins árlega og bera málefni þess undir nefndina eftir því sem þurfa þykir.

4. gr.

Forseti Alþingis skipar, að höfðu samráði við forsætisnefnd, þrjá fulltrúa í stjórn hússins til fjögurra ára í senn. Í stjórninni skulu eiga sæti sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, eða fulltrúi sendiráðsins, einn Íslendingur með fasta búsetu í Kaupmannahöfn og einn fulltrúi skrifstofu Alþingis sem jafnframt er formaður. Gætt skal að kynjahlutfalli við skipan stjórnar.

Stjórn hússins hefur umsjón með rekstri þess og notkun og skal hún leita samþykkis forseta við öllum meiri háttar ákvörðunum um rekstur þess.
Stjórn hússins skal gera fjárhagsáætlun fyrir rekstur Jónshúss. Fjárhagsáætlunin skal staðfest af forseta og kynnt forsætisnefnd.

5. gr.

Stjórnin skal árlega, eða svo oft sem þurfa þykir, boða til samráðsfunda með fulltrúum félaga og samtaka sem tengjast Íslandi og hafa föst afnot af sameiginlegri aðstöðu í húsinu.

6. gr.

Stjórn hússins ræður umsjónarmann og annað nauðsynlegt starfsfólk hússins í samræmi við skipulag og fjárveitingar til rekstursins.

7. gr.

Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn annast fjárreiður hússins í samráði við skrifstofu Alþingis.

II. Íbúðir fyrir fræðimenn í Húsi Jóns Sigurðssonar.

8. gr.

Í Jónshúsi skulu vera tvær íbúðir, ætlaðar til afnota fyrir íslenska ríkisborgara og einstaklinga með lögheimili á Íslandi sem hyggjast vinna að rannsóknum-, fræðistörfum eða verkefnum í Kaupmannahöfn eða nágrenni.

9. gr.

Fyrir afnot af íbúð skal greiða gjald sem samsvarar rekstrar- og þjónustukostnaði íbúðar. Upphæð gjaldsins skal tilgreind hverju sinni í auglýsingu. Íbúðirnar skulu búnar öllum nauðsynlegum heimilisbúnaði en stjórn hússins ákveður að öðru leyti hvernig íbúðirnar eru útbúnar og annast rekstur og viðhald þeirra.

Stjórn hússins getur sett nánari skilmála um afnot og umgengni.

10. gr.

Úthlutunarnefnd ráðstafar íbúðunum hverju sinni eftir þeim umsóknum sem berast. Forseti Alþingis skipar þrjá menn í nefndina að höfðu samráði við forsætisnefnd. Einn þeirra skal vera formaður. Þess skal gætt að nefndarmenn hafi fræðilega þekkingu og endurspegli eftir því sem kostur er þann breiða hóp sem sótt getur um afnot af íbúðunum, sbr. 12. gr.. Gætt skal að kynjahlutfalli við skipan nefndarinnar.

Nefndin skal skipuð til fjögurra ára.

11. gr.

Úthlutunarnefndin auglýsir íbúðirnar opinberlega til umsóknar. Önnur íbúðin skal auglýst til umsóknar eigi síðar en fyrir lok aprílmánaðar og hin eigi síðar en fyrir lok októbermánaðar. Í auglýsingu skal getið hverjir séu skilmálar fyrir afnotum, með hvaða kjörum þær fáist og hver séu meginsjónarmið við úthlutunina.

Umsóknareyðublað skal vera aðgengilegt á heimasíðu Jónshúss (jonshus.dk).
Í umsókn skal tekið fram hve lengi umsækjandi æski afnota, fyrir hvaða tímabil, og að hvaða verkefnum skuli unnið.

12. gr.

Úthlutunarnefndin ráðstafar íbúðunum hverju sinni eftir þeim umsóknum sem berast. Nefndin skal meta tímalengd dvalar eftir eðli verkefnis umsækjanda og óskum hans, en dvalartími getur þó að jafnaði ekki orðið lengri en fimm vikur. Við úthlutun skal horft til þess hvort verkefnið hafi fræðilegt eða hagnýtt gildi eða þyki að öðru leyti áhugavert viðfangsefni. Þá skal þess gætt að sem eðlilegust skipting sé milli kynja og fræðasviða. Þegar umsækjendur eru jafnsettir skulu þeir ganga fyrir sem sækja um dvöl í fyrsta skipti.

Úthlutunarnefndinni er heimilt að leita álits sérfræðinga um umsækjendur og þau verkefni sem þeir hyggjast vinna að ef hún telur þörf á.

13. grein

Skrifstofa Alþingis lætur nefndinni í té þá aðstoð sem þörf er á. Skrifstofan leggur nefndinni til starfsmann.
Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist af fjárveitingum til reksturs Jónshúss.

14. gr.

Úthlutunarnefndin getur sett sér nánari starfsreglur. Þær skulu staðfestar af forseta Alþingis.

15. gr.

Þegar úthlutun liggur fyrir skal hún send forseta Alþingis og stjórn Húss Jóns Sigurðssonar og síðan birt opinberlega.

III. Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta.

16. gr.

Verðlaunin heita Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta og eru veitt af Alþingi í minningu starfa Jóns Sigurðssonar í þágu Íslands og Íslendinga.

17. gr.

Sumardaginn fyrsta skal ár hvert efnt til Hátíðar Jóns Sigurðssonar í Jónshúsi. Þann dag skulu Verðlaun Jóns Sigurðssonar veitt við athöfn í Jónshúsi.

18. gr.

Verðlaunin skulu veitt einstaklingum og félagasamtökum fyrir framlag sem eflir tengsl Íslands og Danmerkur og tengist hugsjónum og/eða störfum Jóns Sigurðssonar. Slíkt framlag getur jöfnum höndum verið á sviði fræðistarfa, vísinda, mennta- eða menningarmála. Verðlaununum er ætlað að vera viðurkenning fyrir þegar unnið framlag og/eða hvatning til góðra verka.

19. gr.

Stjórn Húss Jóns Sigurðssonar, sbr. I. kafla, skal fyrir 1. mars ár hvert gera tillögur til forsætisnefndar um hver hljóti verðlaunin það ár. Í tillögum til forsætisnefndar, skal stjórn hússins gæta að kynjahlutfalli.

20. gr.

Verðlaunafé skal ákveðið af forseta Alþingis með hliðsjón af fjárheimildum hverju sinni.

Gildistaka

21. gr.

Reglur þessar öðlast gildi 1. janúar 2014. Um leið falla úr gildi reglur um Jónshús frá 24. sept. 1994, með breytingu 23. sept. 1996. Við gildistöku reglnanna falla jafnframt úr gildi samningar sem gerðir hafa verið á grundvelli eldri reglna um Jónshús. Þá falla úr gildi reglur um fræðimannsíbúð Jóns Sigurðssonar frá 27. mars 2006. Einnig falla úr gildi reglur um Verðlaun Jóns Sigurðssonar frá 15. apríl 2008.

Reglur þessar eru settar á grundvelli gjafabréfs Carls Sæmundsens stórkaupmanns, dags. 17. júní 1966, þar sem hann gefur íslenska ríkinu húsið Austurvegg (Østervoldgade) 12 í Kaupmannahöfn og felur það forsjá Alþingis.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 18. nóvember 2013, breytt 23. janúar 2023).