• Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2013  afhent.
    Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2013
    Uffe Elleman-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur og aðalræðumaður á Hátíð Jóns Sigurðssonar 2013, Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, og Stefán Blöndal, sonur verðlaunahafans, Erlings Blöndals Bengtssonar, sem veitti verðlaunum viðtöku fyrir hönd föður og flutti kveðju hans.

Erling Blöndal Bengtsson hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta 2013

Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2013 komu í hlut Erlings Blöndals Bengtssonar sellóleikara. Erling á að baki langan og farsælan tónlistarferil og hefur lagt mikið af mörkum við að efla tengsl Íslands og Danmerkur á sviði tónlistar.

Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í dag, 25. apríl, á sumardaginn fyrsta. Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, setti hátíðina og afhenti verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta. 

Verðlaunin féllu að þessu sinni í hlut Erlings Blöndals Bengtssonar sellóleikara. Erling á að baki langan og farsælan tónlistarferil og hefur lagt mikið af mörkum við að efla tengsl Íslands og Danmerkur á sviði tónlistar. Stefán, sonur Erlings, tók við verðlaununum fyrir hönd föður síns sem búsettur er í Bandaríkjunum.

Aðalræðumaður á hátíðinni var Uffe Elleman-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, og gerði hann að umfjöllunarefni stöðu vestnorrænu ríkjanna við nýjar aðstæður.

Verðlaunin hafa áður hlotið:

2012: Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur og prófessor emeritus.
2011: Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
2010: Søren Langvad byggingarverkfræðingur.
2009: Erik Skyum-Nielsen bókmenntafræðingur.
2008: Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.

Alþingi veitir Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta í minningu starfa hans í þágu Íslands og Íslendinga. Þau hlýtur hverju sinni einstaklingur sem hefur unnið verk er tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Þau verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála.