10.12.2021

Íslensku jólasveinarnir komnir í Jónshús!

Það er listakonan Kolbrún Guðjónsdóttir sem hannaði og bjó sveinana til að ógleymdum þeim Grýlu, Leppalúða og Jólakettinum. Kolbrún er fædd á Akureyri en ólst upp í Keflavík frá sjö ára aldri. Hún fluttist til Noregs ásamt fjölskyldu sinni árið 1998 þar sem hún nam myndlist og hönnun í Tangen Videregående skole i Kristiansand, en auk þess sat hún mörg handverksnámskeið og listræna áfanga. 

K.G

Þegar hún fluttist til Íslands aftur árið 2004, hélt hún áfram að mennta sig á sviði lista og sat námskeið í myndlist við myndlistaskóla Reykjaness sem og Myndlistaskóla í Reykjavíkur. Auk þess að vera listakona er Kolbrún fjórfaldur Íslandsmeistari í Taekwondo, sem hún hefur æft um nokkurra ára skeið ásamt börnum sínum.

Þegar fjölskyldan bjó í Noregi þá var Kolbrúnu mikið í mun að varðveita íslensku jólahefðirnar með krökkunum sínum. Hún las fyrir þau um íslensku jólasveinana og söng jólalögin, “ég man vel þegar við vorum á leið í íslenska messu í Noregi, hvað íslensku jólin búa sterkt í manni, þegar ég var að syngja upphátt með börnunum Bráðum koma blessuð jóin”. Það var þarna sem hún ákvað að útbúa jólasveinana ásamt foreldrum þeirra og sjálfum Jólakettinum.

 Hausarnir urðu til úti í Noregi, en þá mótaði Kolbrún úr postulínsleir. Við flutningana til Íslands, gleymdust hausarnir ofan í kassa, og við tóku annasöm ár við að aðlagast lífinu heima á Íslandi. Það var ekki fyrr en vorið 2010 að Kolbrún rakst á hausana við tiltekt í geymslunni. Í kjölfarið ákvað hún að hafa samband við bókasafnið í Reykjanesbæ og athuga hvort hún mætti setja upp jólasýningu hjá þeim sama ár. Þetta gerði hún til þess að setja á sig pressu að klára verkið. Það var úr að sýningin var klár í desember 2010, átta árum eftir að Kolbrún byrjaði á verkinu á sínum tíma úti í Noregi.

Ljosmyndir-faro-islands-trip-1_10_6ebb68dbe8a90638a0be37934443c2ad

Kolbrún sótti innblástur í kvæði Jóhannesar úr Kötlum um íslensku jólasveinana og fann sterkt fyrir fígúrunum þar. Hún sökkti sér á bólakaf í verkið á meðan á því stóð og talaði jafnvel við sjálfa sig á meðan hún var að skapa karakterana “ég hef mikla þörf fyrir að upplifa það sem ég er að búa til” segir Kolbrún. Kolbrún segir krakka sína stundum hafa spurt hana hvaða svipur þetta væri eiginlega á henni, þá var hún kanski að gretta sig framan í Grýlu. Karakterarnir áttu það til að taka sér bólfestu í henni á meðan hún var að móta þá skapa. Að eigin sögn þykir Kolbrúnu mjög vænt um þessa sýningu, þetta séu börnin hennar í jólaheimi sem hún vilji alls ekki selja heldur lána á staði þar sem líkur eru á að börn og fullorðnir njóti og hafi gaman að. Kolbrún vill minna okkur á að við eigum einstakar jólahefðir, hefðir sem engin önnur þjóð á, og að í þeim liggi rætur okkar meðal annars.

 “Segja vil ég sögu
af sveinunum þeim,
sem brugðu sér hér forðu
á bæina heim”.

Þegar hún vitnar í kvæði Jóhannesar úr Kötlum og býður upp á jólasýningu, þá er hún að bjóða okkur að tegjast betur okkar íslensku rótum í gegnum sagnahefðir jólanna. Við í Jónshúsi erum þess fullviss að sýningin muni koma á óvart og gleðja jafnt unga sem aldna, vonum við að sem flestir sjá sér fært að koma og upplifa þessa frábæru sýningu.

 Sýningin er í fundarherbergi á 2. hæð hússins.