• Hús
    Jónshús

10.1.2020

Yfirlit yfir starfsemi og viðburði í Jónshúsi 2019

Föst og regluleg starfsemi

  • Fimm kórar æfa vikulega í húsinu, íslenskukennsla er hvern laugardag, AA fundir á sunnudögum, foreldramorgnar á fimmtudögum, prjónakaffi fyrsta þriðjudag í mánuði, auk þess sem Íslendingafélagið stendur fyrir spilavist einu sinni í mánuði.

  • Íslenski söfnuðurinn með séra Ágúst Einarsson prest sér til þess að haldnar eru íslenskar guðsþjónustur í Kaupmannahöfn, auk þess stendur söfnuðurinn fyrir sunnudagaskólanum sem er í Jónshúsi aðra hverja viku og nýtur hann mikililla vinælda. Einnig fer fram í húsinu fermingarfræðsla fyrir íslensk fermingarbörn.
  • Sunnudagskaffi sem er fjáröflun kórana, og haldið í kjölfar guðsþjónustu, hefur verið vel sótt og má sem dæmi nefna að síðast kláruðust allar veitingar á skömmum tíma.
  • Í haust stækkaði í hóp reglulegra notenda, því stofnað var félga Heldriborgara sem auk annars heldur opið hús á miðvikudögum.
  • Sem fasta starfsemi í húsinu ber einnig að nefna bókasafnið, en það er sérlega vel nýtt. Mjög mikil og stöðug aðsókn er í safnið, og mikil eftirspurn eftir bókum, ekki síst nýjum bókum.
  • Ætla má að fastir notendur hússins á árinu, þeas. þeir sem reglulega nota húsið, hafi verið á fjórða hundrað.

Aðrir viðburðir voru meðal annars:

  • Hátíð Jóns Sigurðsonar var að venju haldin á sumardaginn fyrsta og að þessu sinni féllu verðlaun Jóns Sigurðssonar í skaut Vibeke Nørgaard Nielsen, rithöfundar og fyrrverandi kennara. Fjöldi fólks lagði leið sína í Jónshús þennan sólríka dag og þótti athöfnin heppnast sérlega vel í alla staði.

  • Í haust stóð Svafa Þórhallsdóttir fyrir „krílasöng“ fyrir foreldra og ungabörn og féll sú nýbreytni í góðan jarðveg.
  • Íslendingafélagið stóð fyrir páskabingói og komust færri að en vildu, sem er það sama og segja má um skötuveisluna sem haldin var 22. desember. 1. desember hélt félagið Jólatombólu sem heppnaðist mjög vel.
  • Haldin voru námskeið, fyrirlestrar og kynningar. Sem dæmi má nefna fyrirlesturinn „Með taugarnar þandar“ og bókakynningu sem kallaðist „Úrval ljóð“. FKA hélt námskeið um LinkedIn og auk þess voru haldin námskeið um Bodydynamic, bollakökuskreytingar og sápur, svo fátt eitt sé nefnt.
  • Háskólanemendur voru duglegir að nýta sér húsið, ekki síst nemar í DTU sem héldu nemakvöld og tóku á móti kynningum frá verkfræðistofum frá Íslandi.
  • Einnig má nefna mörg afar fjölmenn kvöld þar sem Íslendingar mættu og studdu sína menn og konur, hvort sem um var að ræða íþróttir eða Eurovision.Að síðustu má nefna árlegan jólamarkað sem var afar vel sóttur, fjömenna aðventuhátíð, hausfund Dansk-Islandsk Samfund sem tókst vel, og heimsókn kirkjukórs Sauðárkróks sem heppnaðist vel.

 

Töluvert var um tónleika og listasýningar á árinu

  • Svavar Knútur mætti í Jónshús og spilaði og söng fyrir fullu húsi af gestum.
  • Íslensku djasssöngkonurnar Stína Ágústsdóttir og Marína Ósk komu í Jónshús og fluttu jólalög af jólaplötu þeirra “Hjörtun okkar jóla”. Mikil stemning var á Jóladjasstónleikum.

  • Söngfélagið góðir grannar frá Reykjavík var að ferðalagi kom við í Jónshúsi og hélt tónleika.
  • Ljóð og lag; Þórarinn Hannesson stofnandi og forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands, heimsótti Jónshús, flutti ný og gömul ljóð við frumsamin lög.
  • Í byrjun febrúar var sýning að nafni SUND þar sýndi Sigurrós Eiðsdóttir röð ljósmynda sem hún hafði klippt og endurraðað.
  • Guðrún Gunnarsdóttir myndlistarkona sýndi víraverk út frá höfðuðskrauti Ingibjargar Einarsdóttur í sýningu sem hét “kappar og fínerí”(Í anda Ingibjargar E).
  • Ljósmyndasýning ”Hlutir í huga” eftir Kötlu Kjartansdóttur og Kristin Scram, þar var því velt upp hvernig hlutir tengjast eigendum sínum tilfinningaböndum. Myndirnar tók Brian Berg.

Fræðimenn í Jónshúsi

  • Árlega dvelja 20 til 22 fræðimenn í Jónshúsi við hin ýmsi fræðistörf. Komast færri að en vilja, en aldrei áður hafa jafn margir sótt um dvöl í fræðimannaíbúðunum.
  • Nokkrir af fræðimönnum sem dvöldu í húsinu héldu erinidi fyrir okkur hin og voru þau án undantekninga áhugaverð og einnig prýðilega sótt. Nánari upplýsingar hér.

Gestir og gangandi

  • Stöðugur straumur er af Íslendingum sem heimsækja Jónshús til að skoða húsið og heyra um þá starfsemi sem þar er, auk þess sem mikill áhugi er á skoða safnið á þriðju hæðinni. Endurgerð íbúðarinnar hefur tekist vel og almenn ánægja með það verk.

  • Margir hópar sem fara í gönguferðir um Kaupmannahöfn enda göngur sínar í Jónshúsi og fá kynningu á húsinu og starfsemi þess. Gerður hefur verið góður rómur af þeim heimsóknum.

Niðurlag

  • Óhætt að segja að starfið í húsinu gangi vel en það sést best á að þátttaka er mikil og góð í nær öllu sem fram fer í húsinu, og hefur aukist ár frá ári undanfarin ár. Sem dæmi má nefna að aldrei áður hafa jafn mörg börn sótt Íslenskuskólann, eins og að mikil fjölgun hefur verið í sunnudagaskólanum sem fer fram annan hvorn sunnudag. Ætla má að rúmlega 11 þúsund manns hafi lagt leið sína í Jónshús á árinu 2019.
  • Um leið og við þökkum fyrir lifandi og skemmtilega starfsemi í Jónshúsi, óskum við notendum hússins, og öllum öðrum, farsældar á árinu sem var að byrja og vonumst eftir að starfsemin haldi áfram að blómstra. Á yfirstandandi ári, 2020, á húsið 50 ára starfsafmæli, þann 12. september og verður þá meðal annars horft um farinn veg.