29.4.2010

Úthlutun fræðimannsíbúðar Húss Jóns Sigurðssonar 2010-2011

Alls bárust úthlutunarnefnd að þessu sinni 27 umsóknir. Ellefu fræðimenn fá afnot af íbúðinni.

 

Úthlutunarnefnd fræðimannsíbúðar samkvæmt reglum um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn hefur lokið störfum og úthlutað íbúðinni frá september 2010 til ágústloka 2011.

 

Í nefndinni eiga sæti Anna Agnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, formaður, Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst og Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla. Ritari nefndarinnar er Jörundur Kristjánsson, alþjóðaritari á skrifstofu forseta Alþingis.
Alls bárust nefndinni að þessu sinni 27 umsóknir.
Ellefu fræðimenn fá afnot af íbúðinni, sem hér segir:

 

Arndís S. Árnadóttir til að vinna verkefni er ber heitið „Hannyrðakonur, auglýsingateiknarar og leirkerasmiðir“.
Bjarki Sveinbjörnsson til að rannsaka frumheimildir um íslenska tónmenningu, varðveittar í Danmörku.
Dagný Kristjánsdóttir til að vinna verkefni er tengist nýrri íslenskri barnabókmenntasögu.
Einar G. Pétursson til að vinna verkefni sem tengist útgáfu á ritum Jóns Guðmundssonar lærða.
Guðrún Valgerður Skúladóttir til að vinna verkefni er tengist bólguþáttum í blóði hjartasjúklinga og orsakatengslum þeirra við þróun gáttarifs í kjölfar opinna hjartaaðgerða.
Gunnar Þór Bjarnason til að rannsaka Uppkastið 1908.
Hjalti Hugason til að vinna verkefni er tengist upphafi og þróun þjóðkirkjuskipunar á Íslandi á 19. og 20. öld.
Jóhanna Einarsdóttir til að vinna verkefni sem tengist alþjóðlegri skimunartækni til að meta stam.
Jón Þ. Þór til að rannsaka sögu Kaupmannahafnar sem höfðuðborgar Íslands.
Reynir Tómas Geirsson til að rannsaka súrefnisbúskap fósturs hjá konum með sykursýki á meðgöngu.
Þórir Óskarsson til að vinna verkefni um bókmenntasögu sem námsgrein lærðra skóla á Íslandi.

 

Fræðimannsíbúðin í Kaupmannahöfn, tengd nafni Jóns Sigurðssonar, er skammt frá Jónshúsi, í Sankt Pauls Gade 70. Fræðimaður hefur vinnustofu í Jónshúsi.

 

(29. apríl 2010)