• Sýning um Jón Sigurðsson - Stofa
  Sýning um Jón Sigurðsson
  Stofa Jóns og Ingibjargar í Jónshúsi
 • Sýning um Jón Sigurðsson - Stofa
  Sýning um Jón Sigurðsson
  Stofan í Jónshúsi.
 • Sýning um Jón SIgurðsson - Skrifborð
  Sýning um Jón SIgurðsson - Skrifborð
  Sýning um Jón SIgurðsson - Skrifborð

Sýning um Jón Sigurðsson

Á þriðju hæð er sýning sem fjallar um uppvöxt, ævi og lífsstarf Jóns Sigurðssonar og helstu áfanga í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að honum gengnum; heimastjórn 1904, fullveldi 1918, stofnun lýðveldis 1944 og mikil samskipti Íslendinga og Dana síðan. Saga hússins er rakin og greint er frá þætti Tryggva Gunnarssonar í stofnun Safns Jóns Sigurðssonar. Loks er lítil sýning tileinkuð Ingibjörgu Einarsdóttur í eldhúsi hennar.

Björn G. Björnsson hannaði sýninguna og Guðjón Friðriksson sagnfræðingur samdi texta. Lars H. Andersen þýddi texta á sýningarspjöldum á dönsku. Jóhannes Long tók ljósmyndir. 

Þjóðskjalasafn Íslands lánaði skjöl og Þjóðminjasafn Íslands lagði til muni úr Safni Jóns Sigurðssonar.

Í tilefni 200 ára afmælis Jóns Sigurðssonar 2011 ákvað afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar að láta gera vandað margmiðlunarefni um líf og starf Jóns Sigurðssonar og hafa aðgengilegt í Jónshúsi, á Hrafnseyri og í Þjóðminjasafni Íslands. Fyrirtækið Gagarín framleiddi margmiðlunarefnið og Guðjón Friðriksson samdi texta. Marianne Skovsgård Nielsen þýddi textann á dönsku. Sögulegar myndir voru fengnar hjá Þjóðminjasafni Íslands en auk þess voru teknar ljósmyndir og kvikmyndir sérstaklega fyrir verkefnið.

Margmiðlunin birtist sem tímaás á stórum snertiskjá þar sem hægt er að fletta upp í 19. öldinni á þrjá vegu og fræðast um lífshlaup Jóns Sigurðssonar, vísindastörf hans og stjórnmálaþátttöku. Við hverja snertingu koma einnig upp fjölmargir fróðleiksmolar um samtímaviðburði á Íslandi, í Danmörku og heiminum öllum.

Afmælisnefndin lét einnig gera danska og enska útgáfu af kvikmyndinni Jón Sigurðsson — Maður og foringi sem Sagafilm framleiddi í tilefni af 50 ára lýðveldisafmæli Íslands 1994 og verður hún til sýnis  í Jónshúsi.

Þá var gerður bæklingurinn Á slóðum Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn — Leiðarvísir með þremur göngutúrum eftir Guðjón Friðriksson með ljósmyndum eftir Jóhannes Long. Alþingi gefur út.

Alþingi kostaði margmiðlunarbúnað og gerð sýningar en afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar lagði til margmiðlunarefnið.

Nánari upplýsingar um Jón Sigurðsson og sýninguna.