Jón Sigurðsson

Jón Sigurðsson var fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní árið 1811. Foreldrar hans voru Sigurður Jónsson, prestur þar og kona hans Þórdís Jónsdóttir. Jón fór úr foreldrahúsum 18 ára gamall og stundaði nám og störf í Reykjavík um nokkurra ára bil.

Rúmlega tvítugur hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann hóf nám við Kaupmannahafnarháskóla. Þar sinnti hann, samhliða námi, ýmsum störfum og hugðarefnum, m.a. útgáfu Nýrra félagsrita.

Jón tók sæti á endurreistu Alþingi 1845 og sigldi þá til Íslands eftir að hafa dvalið samfellt í 12 ár í Kaupmannahöfn. Hann var þingmaður frá 1845 -1879 og dvaldi þá á Íslandi meðan þing stóð en á þessum árum kom þing saman annað hvert ár og stóð í 6 vikur. Hann var frá upphafi forustumaður þingsins og lengstum forseti þess meðan hans naut við. Jón var lykilmaður í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og beitti sér í henni hvort sem hann var staddur á Íslandi eða í Kaupmannahöfn. Jón var búsettur í Kaupmannahöfn allt frá því að hann hélt þangað til náms 1833 og til dánardags.