Fræðimenn í Jónshúsi frá 1971

Allt frá því að Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn var tekið í notkun sem menningar- og félagsmiðstöð Íslendinga á Hafnarslóð, þann 12. september 1970, var stefnt að því að hluti hússins gæti nýst íslenskum fræði- og vísindamönnum. Í húsinu voru tvær íbúðir og var önnur ætluð presti íslenska safnaðarins í Kaupmannahöfn, sem jafnframt skyldi veita Jónshúsi forstöðu. Hin íbúðin, á 2. hæð, var ætluð fyrir fræðimenn sem dveldu um skemmri eða lengri tíma í Kaupmannahöfn. Tæpu ári eftir að húsið opnaði var allt til reiðu fyrir úthlutun fræðimannsíbúðar og fyrstur hlaut dvöl Gylfi Þ. Gíslason prófessor, alþingismaður og fyrrverandi menntamálaráðherra.

Árið 1991 festi Alþingi kaup á íbúð við St. Paulsgade, í nágrenni Jónshúss, og var fræðimannsíbúð flutt þangað. Þess í stað var íbúðinni á 2. hæð breytt í aðstöðu fyrir Félag íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn og Íslendingafélagið, en félögin höfðu um nokkurt skeið óskað eftir betri aðstöðu fyrir félagstarfið. Er kom fram á 21. öldina minnkaði þörfin fyrir sérstaka skrifstofu- og félagsaðstöðu félaganna svo hluti 2. hæðar var lánaður íslenskum félögum og einstaklingum til funda og kynninga í Kaupmannahöfn.

Síðustu stóru breytingar á aðstöðu fræðimanna í Kaupmannahöfn urðu með samþykkt forsætisnefndar Alþingis í nóvember 2013 þegar reglum um Hús Jóns Sigurðssonar var breytt og ákveðið að í húsinu skyldu vera tvær íbúðir fræðimanns. Íbúðin við St. Paulsgade var seld og andvirði hennar nýtt til að gera viðamiklar breytingar á húsaskipan í Jónshúsi. Gamla þurrloftið var innréttað sem íbúð umsjónarmanns, fyrrum umsjónarmannsíbúðin á 4. hæð lögð undir aðstöðu fræðimanns og 2. hæðin sömuleiðis innréttuð sem fræðimannsíbúð. Fyrsta úthlutun nýrrar íbúðar var í ársbyrjun 2015 og hafa frá þeim tíma verið tvær íbúðir fræðimanns í Jónshúsi.

Mikill fjöldi fræðimanna sækir jafnan um dvöl á hverju ári og hefur úthlutunarnefnd haft að leiðarljósi að hafa sem jafnastan hlut kynja og að fræðimenn með fjölbreyttan bakgrunn hljóti úthlutun. Dvalartími var í árdaga lengri, allt að þrír til fjórir mánuðir. Með betra aðgengi að gögnum á internetinu og gjörbreyttum samskiptamöguleikum hefur þörfin fyrir lengri dvöl minnkað, nú er að jafnaði úthlutað 4-6 vikna dvöl. Hafa sumir fræðimenn lagt sitt að mörkum til að efla félagsstarf í Jónshúsi og boðið upp á fyrirlestra og kynningar á sínu fræðasviði, löndum á Hafnarslóð til fræðslu og skemmtunar.

Hér að finna lista yfir þá fræðimenn sem hafa fengið úthlutað frá upphafi. Hugsanlega eru einhverjar villur í listanum og eru allar ábendingar um það efni vel þegnar. Upplýsingar vantar um verkefni fræðimanna á árunum 1971 til 1987 og ef einhver sem sér þennan lista þekkir til verkefnis þá má senda slíkar upplýsingar á netfangið info@jonshus.dk.