6.5.2011

Úthlutun fræðimannsíbúðar Húss Jóns Sigurðssonar 2011-2012

Alls barst úthlutunarnefnd að þessu sinni 41 umsókn. Tíu fræðimenn fá afnot af íbúðinni, sem hér segir.

 

Úthlutunarnefnd fræðimannsíbúðar samkvæmt reglum um Hús Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn hefur lokið störfum og úthlutað íbúðinni frá ágústlokum 2011 til ágústloka 2012.
 
Í nefndinni eiga sæti Anna Agnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, formaður, Ágúst Einarsson, prófessor við Háskólann á Bifröst, og Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla. Ritari nefndarinnar er Jörundur Kristjánsson, alþjóðaritari á skrifstofu forseta Alþingis.

 

Alls barst nefndinni að þessu sinni 41 umsókn.
Tíu fræðimenn fá afnot af íbúðinni, sem hér segir:

Árni Heimir Ingólfsson til að vinna verkefni um tónlist í íslenskum handritum í Kaupmannahöfn, og tónlistartengsl Íslands og Danmerkur á 17. öld.
Birna Arnbjörnsdóttir til að vinna verkefni um aðlögun innflytjenda og menntun tungumálakennara í fullorðinsfræðslu.
Guðbjörg Vilhjálmsdóttir til að vinna verkefnið „Habitus og framtíðarstörf“.
Guðný Björk Eydal til að vinna verkefni um feðrahlutverk á Norðurlöndum, norræna fjölskyldustefnu og framkvæmd félagsþjónustu í Kaupmannahöfn.
Katrín Ólafsdóttir til að vinna verkefnið „Virkar vinnumarkaðsaðgerðir: Hvað geta Íslendingar lært af Dönum?“.
Kristján Sveinsson til að vinna verkefni um sjómælingar Dana við Ísland 1784-1914, útgáfu sjókorta og leiðsögubóka.
Ólafur Ásgeirsson til að vinna að afritun verslunarbóka frá 18. öld.
Ragnhildur Helgadóttir til að vinna verkefni um stjórnskipun í mótun: áhrif stjórnskipunarréttar ESB á danska stjórnskipun.
Sverrir Tómasson til að vinna verkefni um útgáfur Njáls sögu, aðallega á 19. öld.
Torfi H. Tulinius til að vinna verkefni um Íslendingasögur sem listaverk frá Sturlungaöld.

 

Fræðimannsíbúðin í Kaupmannahöfn, tengd nafni Jóns Sigurðssonar, er skammt frá Jónshúsi, í Sankt Pauls Gade 70. Fræðimaður hefur vinnustofu í Jónshúsi.