Fréttabréf 7. október
Garnaflækjan í Kaupmannahöfn, Krakkakirkja og auglýst er eftir umsóknum um dvöl í íbúð fræðimanns í Kaupmannahöfn 2022
Garnaflækjan í Kaupmannahöfn
Garnaflækjan er einn af föstum liðum í starfi Jónshúss. Fyrsta þriðjudag í mánuði er prjónað, heklað og saumað í.
Þriðjudaginn 5. október var prjónakaffi Garnaflækjunnar með nýju sniði þar sem boðið var upp á örnámskeið sem fjallaði um hvernig unnt er að prjóna trefil út afgöngum með tveimur eða fleiri litum.
Vel var tekið á móti námskeiðinu, bæði byrjendur og þær sem eru með áratuga reynslu í því að prjóna.
Dagmar og Halla munu því halda áfram bjóða upp á örnámskeið.
Næsta prjónakaffi verður þriðjudaginn 2. nóvember. Þar verður haldið áfram að prjóna trefil, prjóna með ríkjandi og víkjandi lit. Auk þess ætla Dagmar og Halla að sýna og kenna nokkrar aðferðir við að fitja upp.
Að vanda var mikið prjónað, spjallað og eplakakan með Þristi rann ljúft niður.

Nánari upplýsingar um Garnaflækjuna er að finna hér.
Sjáumst í nóvember.
Krakkakirkja
Laugardaginn 6. október frá kl. 11 til 12.
Sunnudagaskólinn færist yfir á laugardaga. Annan hvern laugardag mun söngur, gleði og gaman fylla salinn í Jónshúsi af körkkum á öllum aldri.
Bryndís, Kjartan, Sigfús og Sóla sjá um stundina. Á laugardaginn á að syngja og dansa, hlusta á sögu og hafa notarlega stund saman. Eftir stundina er boðið upp á hressingu fyrir alla. Notarleg samverustund þar sem krakkarnir geta litað og leikið sér saman á meðan fullorna fólkið spjallar saman.
Allir hjartanlega velkomnir.
Nánari upplýsingar hér.
Aðgangur ókeypis.
Auglýst er eftir umsóknum um dvöl í íbúð fræðimanns í Kaupmannahöfn 2022
Umsóknir um dvöl í íbúð fræðimanns í Kaupmannahöfn 2022
Íbúð fræðimanns í Kaupmannahöfn, samkvæmt reglum um hús Jóns Sigurðssonar, er laus til afnota árið 2022. Umsóknir um íbúðina skulu hafa borist skrifstofu Alþingis eigi síðar en þriðjudaginn 2. nóvember næstkomandi.
Fræðimenn, sem hyggjast stunda rannsóknir eða vinna að verkefnum í Kaupmannahöfn, geta sótt um afnot af íbúðinni, sem er á 4. hæð Jónshúss. Íbúðin er tveggja herbergja og fylgir henni allur nauðsynlegasti heimilisbúnaður. Afnotin eru endurgjaldslaus en þeim sem fá úthlutað ber þó að greiða fyrir þrif íbúðarinnar og rekstrarkostnað, alls kr. 60.000. Nánari upplýsingar um fræðimannsíbúðir er að finna á vef Jónshúss.