Fréttbréf - dagskrá Jónshúss
Að undanförnu hefur dagskráin í húsinu verið fjölbreytt. Í byrjun mars fjölmenntu konur á prjónakvöld Garnaflækjunnar; þar var prjónað, heklað og saumað í. Næsta prjónakvöld verður þriðjudaginn 2. apríl. Nánari upplýsingar um prjónaklúbbinn er að finna hér.
Síðasta sunnudag var fjölmenn fjölskyldumessa, þar sem mikið var sungið. Bæði kvennakórinn og barnakórinn sungu, auk þess tóku börnin virkan þátt og allir sungu nokkur sunnudagaskólalög.

Á sunnudaginn var íslenskt sunnudagskaffihlaðborð. Margir lögðu leið sína í Jónshús til að bragða á brauðtertum, heitum réttum og mörgu öðru sem einkennir íslenskt kaffihaldðborð. Að þessu sinni var það Kvennakórinn í Kaupmannahöfn sem sá um veitingasöluna.
Farmundan í Jónshúsi
Laugardagur 16. mars
Með allt á hreinu - Sing along kl. 19:00
Vegna gríðarlegrar eftirspurnar hefur kvennakórinn Dóttir ákeðið að efna aftur til singalong sýningar með hinni sívinsælu Stuðmannamynd "Með Allt á Hreinu". Húsið opnar kl.19 og myndin verður sett í gang kl.20.
Aðgangur er ókeypis en hægt verður að kaupa léttar veigar, íslenskt nammi og aðra hressingu á staðnum. Allur ágóði af sölunni rennur til kvennakórsins Dóttir.
Allar Grýlur, íslenskir karlmenn og þau sem dreymir um að slá í gegn, komið og syngið með okkur Ástardúettinn, Sigurjón digra og alla hina hittarana.
Hlökkum til að sjá þig
Kvennakórinn Dóttir
Sunnudagur 17. mars
Sunnudagaskólinn kl. 11.15
Fjöldi barna og foreldra leggja leið sýna í Jónshús annan hvern sunnudag til að syngja saman, dansa, hlusta á sögur og gera fleira skemmtilegt. Að lokinni samverustund er boðið upp á smá hressingu. Foreldrum gefst tækifæri á að spjalla meðan börin lita og leika sér.

Leiðsögn um íbúð Ingibjargar og Jóns frá kl. 13 til 14
Í tilefni af endurgerð íbúðar Ingibjargar Einarsdóttur og Jóns Sigurðssonar á 3ju hæð hússins verður leiðsögn um sýninguna næstu sunnudaga frá kl 13 til 14. Halla Benediktsdóttir, umsjónarmaður mun veita gestum og gangandi innsýn í heimili þeirra hjóna eins og það var um 1860, en eftir verulega vinnu á liðnu ári er íbúðin nú að mestu leyti eins og hún var á þeim tíma.
Allir velkomnir

Þriðjudagur 19.mars kl. 17.30
Fræðimaður segir frá.
Gisli Pálsson er prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands.
Hann dvelur nú í Jónshúsi og vinnur að rannsókn á örlögum síðustu geirfuglanna sem talið er að hafi fallið í Eldey vorið 1844. Innyfli fuglanna eru á Dýrafræðisafninu við Universitetsparken. Gísli reynir að varpa nýju ljósi á síðustu fuglaferðirnar í Eldey með athugun á handritum í Cambridge og Kaupmannahöfn.Meðal verka Gísla er bókin um Hans Jónatan: Maðurinn sem stal sjálfum sér“ sem þýdd hefur verið á dönsku, ensku og frönsku.
Allir velkomnir

Aðgangur ókeypis

Í dag 15. mars mun sendiráðið Íslands í Kaupmannahöfn í samstarfi við Norden halda upp á Den Lille Kulturnat 2019 í sendiráðinu. Leikkonan Sofie Østergaardmun mæta og lesa uppúr skáldsögunni Mamma Klikk eftir Gunnar Helgason. Þá mun einnig gefast tækifæri á að klappa íslenskum hestum og að sjálfsögðu verður boðið upp á íslenskar pönnukökur.
Einnig verður boðið upp á fiskibeinaföndur fyrir frjóa fingur frá hönnunarfyrirtækinu Hugdettu. Athugið að þátttaka krefst kúltúrpassa, sem að kaupa má í gegn um heimasíðu Den Lille Kulturnat 2019.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest
Kveðja frá starfsfólki sendiráðsins í Kaupamannahöfn
Fimmtudaginn 21. mars
Fernan19 - Herra Hnetusmjör & Huginn
Tveir heitustu tónlistarmenn Íslands sameinast í Köben 21. mars næstkomandi. Herra Hnetusmjör og Huginn hafa báðir verið að gera allt vitlaust með nýjustu lögum sínum á veraldarvefnum og útvarpsstöðvum. Þeir unnu til þrennra verðlauna á Hlustendaverðlaununum 2019: Nýliði ársins (Huginn) og Flytjandi ársins og Plata ársins: Hetjan úr hverfinu!(Herra Hnetusmjör).

Herra Hnetusmjör er einnig tilnefndur til þriggja verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum sem verða kunngerð 13.mars nk.
Þeir félagarnir er að gefa út sína fyrstu sameiginlegu plötu á næstu dögum sem er virkilega spennandi. Prógrammið verður því ansi öflugt og þeim til halds og traust verður flottur plötusnúður.
ATHUGIÐ
Takmarkaður miðafjöldi er á tónleikana – ekki hugsa þig of lengi um.
Nánar um viðburðinn hér.
Húsið opnar kl 19
Upphitun kl 20 - Egill Spegill
Aldurstakmark : 16 ára
#FERNAN19