Jón Kalman kemur í heimsókn
Föstudagur 17. mars klukkan 19:30.
![JonKalmanStefansson-18[1][1][1]](/media/uncategorized/medium/JonKalmanStefansson-18[1][1][1].jpg)
Það verður sérstök ánægja að taka á móti Jóni Kalmani á föstudagskvöldið. Heimsóknin hefst kl. 19.30 og mun Leshringurinn Thor II sjá um að kynna rithöfundinn, leiða spjall og stjórna fyrirspurnum úr sal.
Jón er flestum Íslendingum að góðu kunnur, ekki síst fyrir þríleikinn magnaða sem hófst með bókinni Himnaríki og helvíti og fjallar um um lítið pláss úti á landi um aldamótin. Einnig hafa síðustu tvær bækur hans, Fiskar hafa enga fætur og Eitthvað á stærð við alheiminn hlotið afbragðsdóma.
Fiskar hafa enga fætur gerist að hluta til í Keflavík á áttunda og níunda áratugnum, en þar bjuggu einmitt hjónin í Jónshúsi á sama tíma og höfundurinn. Óhætt og skemmtilegt er frá því að segja að minningin um unglingsárin í pleisinu er ekki eins hjá þeim og honum.
Jón er stjarna í bókmenntaheiminum í Danmörku líkt og víða annars staðar. Við vonum að sem flestir noti tækifærið og kíki í heimsókn í Jónshúsið. Jón er ávallt skemmtilegur og liggur ekki á skoðunum sínum. Sem fyrr segir verður kvöldið með Jóni Kalmann föstudaginn 17. mars og hefst klukkan 19.30.
Bækur verða ekki til sölu, en Jón áritar gjarnan bækur sem fólk kemur með. Íslendingafélagið mun sjá fyrir veitingasölu.
Laugardaginn 18. mars klukkan 18:00.
Kjötsúpukvöld á vegum Íslendingafélagsins.
Íslensk kjötsúpa - það besta sem ég fæ.
ÍFK býður félagsmönnum sínum upp á íslenska kjötsúpu. Takmarkaður fjöldi miða í boði. Gos, bjór og rauðvín til sölu á staðnum. Húsið verður opnað kl. 18:00. Hægt að greiða með reiðufé og MobilePay á staðnum.

Skráning og greiðsla skráningargjalds (100 kr) nauðsynleg. Skuldlausir félagar í ÍFK fá síðan skráningargjaldið endurgreitt um kvöldið.
Kaupa miða hér.