• Jonshus 1914 + stenhusbro
  • Jonshus 1925 08 03
  • Jonshus 1930 _
  • Jonshus 1932

Ljósmyndir af Øster Voldgade 12

Þann 12. september 2020 verður haldið upp á 50 starfsafmæli Jónshúss, því þá hefur íslensk starfsemi verið í húsinu í hálfa öld. Húsið sjálft er þó mun eldra, enda byggt árið 1852 og því 168 ára. Húsið var byggt af Wilhelm Schram sem tóbaksverksmiðja með kjallara og fjórum hæðum.
Jónshús í 50 ár

(1/7) JÓNSHÚS 1899 – 1903: ELSTU MYNDINAR.

Horft er inn (vestur) Stokkhúsgötu árið 1889.

Elsta myndin sem við höfum fundið sem sýnir Jónshús, þó ekki sjáist nema brot af því. Horft er inn (vestur) Stokkhúsgötu árið 1889. Stokkhúsið, fangelsið, er á hægri hönd, en Jónshús vinstra megin, sést í dyrnar sem opnast inn í kjallarann. Mögnuð mynd, skuggaleg. Við hliðina á Jónshúsi er hús sem er horfið. Athygli vekur rennusteinninn á hægri hönd, en hann safnaði rigningarvatni og alls konar öðrum vökva, mishreinum, sem flaut um göturnar á þessum tíma.

Hornið á Jónshúsi um 1900.

Hornið á Jónshúsi um 1900. Horft er norðaustur eftir Øster Voldgade sem kölluð var Austurveggur. Gatan lögð brúarsteini. Á hægri hönd er Stokkhúsið sem stóð enn þó fangelsið hafði verið lokað í 30 ár. Vinstra megin er sjálfur Austurveggurinn, borgarmúrinn, stór og voldugur, með miklum trjám. Á götunni eru menn við reipisgerð, en sú iðn var lengi stunduð hér, bæði af föngum og öðrum góðum mönnum. Götuljósin flott.

Jónshús og Stokkhúsið júlí 1903.

Júlí 1903. Hér sést Jónshús betur, einnig Stokkhúsið. Engin skilti á Jónshúsi, en þau komu stuttu síðar. Sjá má að gengið var inn í Jónsús á horngaflinum, og var það gert fram til 1970. Gluggarnir lengst til vinstri á veggnum sem liggur meðfram Stokkhúsgötu voru aldrei notaðir sem gluggar, líklega af því að það vantaði plás fyrir skápa. Stokkhúsið, á hægri hönd, var 180 árum eldra en Jónshús, byggt 1670 og notað sem fangelsi til 1860. Síðan lager þar til það var rifið 1939.

(2/7) JÓNSHÚS 1910-12: HÚSIÐ TEKIÐ Í GEGN, MÁLAÐ HVÍTT

Ef marka má myndir þá hefur Jónshús (sem þá hét auðvitað ekki Jónshús, heldur Austurveggur nr. 8) verið málað hvítt árið 1912. Áður en það var málað var það farið að láta á sjá að utan, engu að síður var töluverð atvinnustarfsemi í húsinu á þessum árum, auk þess sem búið var á efri hæðum. Frægasti leigjandinn líklega Mette Gauguin, ekkja franska málarans Jean Gauguin.

Horft inn Stokkhúsgötu 1910

Skemmtileg og lífleg mynd þar sem horft er inn Stokkhúsgötu, myndin tekin uppi á Austurveggnum. Sjá má á gafli Jónshús að það er númer 10, en á tímum Jóns og Ingibjargar var það númer 8, en er nú númer 12. Greinilegt er að höndlað var bæði með húsgögn (møbelsnedkeri) og kalk (cocolith) á þessum tíma, en myndin er tekin árið 1910. Rennusteinninn og Stokkhúsið eru enn á sínum stað, þó fangarnir séu löngu fluttir út.

Horft er í suðvestur. Sjá má á hægri hönd hve öflugur og mikill borgarveggurinn hefur verið.

Ein af fáum myndum frá þessu sjónarhorni, þegar horft er í suðvestur. Sjá má á hægri hönd hve öflugur og mikill borgarveggurinn hefur verið. Gaman er að götuljósinu á vinstri hönd, og eins því að notast er við ýmis konar fararskjóta, sumir á hestum, aðrir á bílum og einn ýtir kerru á undan sér rétt fyrir fram Jónshús í kringum 1910 en þá voru fyrstu bílarnir nýkomnir í bæinn.

Hér sjáum við Jónshús í fyrsta sinn alhvítt, myndin er frá 1912

Hér sjáum við Jónshús í fyrsta sinn alhvítt, myndin er frá 1912, en það ár var einnig hafist handa við að fjarlægja Austurvegg og á myndinni má sjá menn vera að höggva niður tré. Húsið lítur orðið betur út en örfáum árum áður, en ekki er hægt að segja það sema um öll húsin við götuna, enda áttu flest eftir að verða rifin. En sem betur fer ekki Jónshús.

(3/7) JÓNSHÚS 1912-17. STÓRFRAMKVÆMDIR. 

Árið 1912 var hafist handa við að rífa Austurvegg og þrátt fyrir töluverð mótmæli lauk því verki tveimur árum síðar. Síðasti hlutinn af borgarveggi Kaupmannahafnar fjarlægður, fyrir utan þann sem enn stendur á Kristjánshöfn. Ástæðan fyrir því að veggurinn var fjarlægður voru stórframkvæmdir. Byggja átti nefnilega göng fyrir járnbraut og tengja Hovedbanegård við Østerport.

Hvítt Jónshúsið fyrir miðri myndinni sem tekin er árið 1913. Gufuknúnar vinnufélarnar grafa niður í jörðina þar sem lestarteininar voru lagðir í göng, sem að hluta til voru yfirbyggð, t.d. við Nørreport, en ekki hér, meðfram Austurvegg. Opið upp. Á þessum tíma stoppuðu lestirnar frá Helsingør við Østerport, en nú átti að byggja 3,4 km göng til að tryggja að fólk gæti tekið lestina alla leið inn á Aðaljárbrautarstöðina, Hovedbanegård. Unnt hefur verið að fylgjast með öllum framkvæmdunum úr Jónshúsi.

Járbrautin sem liggur framhjá Jónshúsi fékk nafnið Boulevardbanen og leikur enn lykilhlutverk í samgöngum borgarinnar, tvö sett af teinum fyrir s-tog og fjögur fyrir járbrautalestir. Það hefur líklega verið lítill friður í Jónshúsinu hvíta á þessum tíma, en þá bjó meðal annars í húsinu Mette Gauguin (áður Gad), var ekkja franska listmálarans Paul Gauguin. Mette bjó í Jónshúsi þar til hún lést í sept. 1920 og er grafin í Garnison kirkjugarðinum í næsta nágrenni. Afkomendur þeirra hjóna búa margir hverjir í Kaupmannhöfn eins og t.d. söng- og leikkonan Alberte Winding. 

Árið er 1914 og búið er að mestu leyti að ryðja Austurvegginn, þó má glögglega sjá leifar hans í görðunum, ekki síst Østre Anlæg, þaðan sem þessi mynd er tekin. Jónshús virkar brúnt á myndinni þó það hafi verið hvítt á þessum tíma. Búið er að reisa brú frá götunni og yfir í garðinn (Østre Anlæg) og stóð sú brú í marga áratugi. Stokkhúsið sendur enn, eins og sjá má. 

(4/7) JÓNSHÚS 1925-35. SNYRTILEGT HVERFI. 

Eftir að járnbrautin hafði verið lögð og Austurveggurinn fjarlægður var sett púður í að gera hverfið í kringum Jónshús snyrtilegt. Trjám var plantað, göngu- og hjólastígar lagðir og dyttað að húsunum. Hér eru þrjár myndir frá þessu tímabili, frekari texti er við hverja mynd.

Hér sjáum við í fyrsta sinn hjólreiðaverslun og -verkstæði í kjallara Jónshúss. Krakkarnir standa fyrir utan innganginn á gaflinum, en þessi inngangur er ekki lengur til staðar, nú er Kaupmannahafnarbekkur þar sem þeir standa. Húsið hefur verið málað, en það var hvítt nokkrum árum áður. Húsið hægra megin við Jónshús var vindlagerð sem átti eftir að brenna. Þar við hliðina var höndlað með timbur. Myndin tekin 3. ágúst 1925.

Umverfið orðið huggulegt, breiðir hjólastígar sitt hvoru megin við götuna og trám hefur verið plantað meðfram götunni fyrir framan Stokkhúsið sem átti eftir að standa í nokkur ár í viðbót, var löngu hætt að vera fangelsi, en notað sem lager. Myndin tekin árið 1930. Enn er gert við hjól í kjallara Jónshús og búið að endurnýja skiltin á húsinu frá því fimm árum áður.

Hér er allt orðið fínt. Myndin tekin 1932. Brúin nánast beint frá Jónshúsi yfir í garðinn, Østre Anlæg, var mikið notuð og er hennar sárt saknað. Hún var fjarlægð árið 1984 til að skapa pláss fyrir rafmagnslestir. Ákveðið var þó í borgarráði í febrúar 2015 að skoða möguleika á að setja hana upp aftur, því brúin, sem fékk nafnið Stokkhúsbrúin, er ennþá til. Ekkert hefur þó enn gerst í þeim málum.

(5/7) JÓNSHÚS 1939-47. STOKKHÚSIÐ HVERFUR. 

Þrjár myndir sem sýna þróun hússins og næsta umhverfis. Á þessum tímum, sem voru jú stríðtímar, áttu sér stað miklar breytingar í nágrenninu, en Jónshús sjálft var frekar rólegt á þessum árum, ef svo má segja. Hjólreiðaverslun og -verkstæði í kjallaranum og búið á fjórum hæðum. Ef smellt er á myndirnar má lesa meira.

Jonshus-1939

Siðasta myndin þar sem Jónshús og Stokkhúsið eru á sömu mynd, því það síðarnefnda var rifið þetta ár, 1939. Stokkhúsið var byggt árið 1670 og var fangelsi fram til 1860, hýsti þegar mest var yfir 500 fanga, sem voru kallaðir þrælar, enda nýttir til vinnu. Þó nokkrir Íslendingar gistu Stokkhúsið. Nafnið kom til vegna refsiaðferðar þar sem fætur fanganna voru settir í göt á bjálka, en bjálki var kallaður stokkur á dönsku. Á íslensku ætti húsið því kannski að kallast Bjálkahúsið. Tæpum 80 árum eftir lokun fangelsisins var húsið rifið, en það hafði að hluta til verið nýtt sem lager áratugina á undan.

Jonshus-1947

Átta árum síðar, árið 1947, heldur betur búið að breyta nágrenni Jónshúss, sem ennþá selur og gerir við hjól í kjallaranum. Við Austurvegg (Øster Voldgade) 10 er komin svaka bygging sem á tíma myndarinnar hýsti Danska Tækniháskólann (DTU), en í dag hýsir GEUS sem rannsakar og veitir ráð varðandi jarðfræði, orku og loftslagsmál, og Gefion sem er menntaskóli, bæði nýr (10 ára) og gamall (rúmlega 800), eftir því hvernig á það er litið.

Jonshus-1940_

Skemmtileg götumynd frá Stokkhúsgötu, tekin um 1940. Hjólreiðaverslunin í kjallaranum og hús hægra megin við Jónshús sem ekki er þar lengur, en það var vindlagerð sem brann. Næst þar við hliðina var timburverslun sem breytt hefur verið í íbúðarhús. Myndin greinilega tekin að sumri, þó enginn sé á stuttubuxum, sem ekki var komið í tísku, en nánast allir gluggar við götuna opnir.

(6/7) JÓNSHÚS 1968-69. ALÞINGI EIGNAST JÓNSHÚS.

Á þessum árum er hverfið ekki í topp formi. Árið 1966 gefur Carl Sæmundssen Íslendingum húsið sem í dag heitir Jónshús. Eins og sjá má á myndum frá þessum tíma voru flest húsin í hverfinu orðin léleg og þurftu annað hvort almennilegt viðhald ellegar að vera rifin niður.
Smellið á myndirnar fyrir frekari texta.

Jonshus-1968-c

Árið er 1968. Húsið ekki fallegt, ekki frekar en húsin í næsta nágrenni. Athygli vekur plattinn um Jón Sigurðsson á horngaflinum, hann var settur upp 1945, þegar Íslendingar vildu hafa stað til að safnast saman og hittast á þegar stríðinu lauk. Tveimur árum áður en myndin var tekin var húsið gefið Alþingi Íslendinga. Eins og sést á myndinni var töluvert verk að vinna til að koma því í gott stand.

Oester-voldgade-12-16-1968

Þessir mynd er tekin að vori 1968. Hún sýnir ekki Jónshús, heldur næstu hús við hlið Jónshúss á Øster Voldgade. Húsið með BT auglýsingunni á gaflinum er við hliðina á Jónshúsi og stendur enn. Húsin þrjú fyrir miðri mynd voru í algerri niðurníðslu enda voru þau öll rifin um haustið sama ár. Skemmtileg mynd af illa förnum húsum. Flottur Fíat.

Jonshus-1968-kopi_preview

Ári síðar, 1969. Búið er að fjarlægja húsin vinstra megin við Jónshús, en ekki búið að gera mikið við Jónshús enn. Ári eftir að þessi mynd var tekin, árið 1970, hófst síðan starfsemi Íslendinga í húsinu og það var þá sem það fékk nafnið Hús Jóns Sigurðssonar, eða Jónshús. Hægra megin á myndinni má sjá lítið hús sem selur tré (Træ) en það er orðið svart og glæsilegt íbúðarhús í dag. Og þar við hliðina er búið að smella inn margra hæða glerhýsi.

Born-a-stokkhusbrunni-1968

Glaðleg mynd af börnum í snjónum (sem sést orðið ekki lengur) á Stokkhúsbrúnni, sem var í fullu fjöri 1968. Brúin.

(7/7) JÓNSHÚS 1990-2020. Í DAG. 

Síðustu myndirnar í myndaseríunni um Jónshús frá 1899 til 2020. Erum kominn í nútímann, húsið búið að vera í eigu Alþingis Íslendinga í áratugi og verður sem kunnugt 50 ára í september í haust. Við vonum að aðstæður leyfi að þeim áfanga verði fagnað með viðeigandi hætti. Smellið á myndirnar til að lesa nánar um húsið, skemmtilegt að sjá breytingar sem orðið hafa á síðustu 30 árum.

Jonshus-1990

Jónshús fyrir 30 árum, árið 1990. Húsið brúndrappað að lit, en að mestu leyti líkt húsinu í dag, að minnsta kosti að utan. Að innan hafa orðið miklar breytingar. Á þessum tíma var ekki fræðimannaíbúð í húsinu og efsta hæðin, undir risinu, var geymsla, en er í dag íbúð umsjónarmanns. Íslendingafélagið og Stúdentafélagið höfðu skrifstofur í húsinu og gáfu m.a. út tímarit. Hægra megin við Jónshús má sjá hvítt hús sem selur timbur og þar á eftir er bil í næsta hús. Á þessu litla svæði hafa orðið verulegar breytingar.

Jonshus-2018

Jónshús í dag. Hvítt og myndarlegt. Bekkur kominn við húsgaflinn. Græni Kaupmannahafnarbekkurinn er verulega vinsæll. Þrjár íbúðir eru í húsinu, þar af tvær fyrir fræðimenn, og íbúð Ingibjargar og Jóns hefur verið sett í fyrra horf. Sjá má hægra megin við Jónshús að hvítu timbursölunni hefur verið breytt í flott svart íbúðarhúsnæði og þar við hliðina er búið að troða háu, miklu og frægu glerhýsi. Og hér með lýkur myndasögunni um Jónshús í 120 ár ...