• Eiríkur og Hrafn

20.8.2019

Fræðimenn segja frá

Eiríkur Örn Arnarson og Hrafn Harðarson eru fræðimennirnir sem nú dvelja í Jónshúsi. Þeir mun halda kynningar á verkefnum sínum á fimmtudaginn 22. ágúst frá klukkan 17.00 til 18.30.
Allir eru velkomnir, aðgangur er ókeypis.

17:00 "Forvörn geðlægðar meðal ungmenna"
Erindið fjallar um forvarnarnámskeið sem hefur verið þróað sem miðar að því að koma í veg fyrir þróun meiriháttar geðlægðar meðal ungmenna, sem taldir eru vera í áhættu að þróa hana.
Þeir eru taldir vera í áhættu, sem eru með talsverð einkenni geðlægðar. Námskeiðið Hugur og Heilsa byggir á kenningum hugrænnar atferlismeðferðar. Markmið er að koma í veg fyrir fyrsta geðlægðarlotuna.

Eiríkur er sérfræðingur í klíniskri sálfræði á geðsviði Landspítala og prófessor í sálfræði við Læknadeild Háskóla Íslands.


17:45 Erindi um þýsk-íslenska listamanninn Wilhelm Beckmann (1909 - 1965).

Wilhelm Beckmann var fjölhæfur listamaður, myndhöggvari og myndskeri. Wilhelm var félagi í þýska jafnaðarmannaflokknum og átti í útistöðum við þýska nasistaflokkinn og varð að flýja land, fyrst til Danmerkur og þaðan til Íslands sem hann bjó til æviloka.
Wilhelm var félagi í Alþýðuflokknum og gerði mörg veggspjöld fyrir hann. Hann var fjölhæfur listamaður. Allt lék í höndum hans. Hann skar út í tré, hjó í stein, málaði myndir og smíðaði skartgripi. Þekktastur er hann fyrir kirkjulistaverk sín en verk hans, skírnarfontar og ljósasúlur, prýða á annan tug kirkna á Íslandi. Hann varð íslenskur ríkisborgari 1946, var fyrsti bæjarlistamaður Kópavogs 1954 og hlaut listamannalaun Alþingis 1960.

Árið 2013 komu ættingjar hans og Kópavogsbær á fót Stofnun Wilhelms Beckmann. Hlutverk hennar er að varðveita minningu hans, halda úti sýningum á verkum hans og styðja unga myndhöggvara til náms. https://www.beckmann.is og á Sarpur.is

Erindið flytur stjórnarformaður Stofnunar Wilhelms Beckmann, Hrafn Andrés Harðarson, en hann dvelur nú í Jónshúsi við söfnun frekari heimilda og ritun ævisögu hans.