• Annnáll 2017

31.12.2017

Gleðilegt ár!

 Viðburðarríkt ár er senn að renna skeið sitt á enda.  Starfsemin í húsinu hefur verið öflug og fjölmargir komu í heimsókn á árinu, einu sinni eða oftar. Hér er stiklað á stóru.

 

Mikil viðbúnaður var í janúar þegar forsetahjónin Guðni Th. Jónhannesson og Elíza Ried ástamt fríðu föruneyti heiðruðu Jónshús með nærveru sinni þegar þau voru í opinberi heimsókn í Kaupmannahöfn.

Margir koma vikulega í Jónshús til að taka þátt í kórastarfi, en alls eru starfandi fjórir kórar í húsinu, þegar með er talinn nýstofnaður barnakór. Tugir barna leggja leið sína í húsið á laugardögum þar sem kennsla fer fram í Íslenskuskólanum.

Sunnudagaskólinn hefur verið vel sóttur það sem af er vetri og kaffihlaðborðið sem er í húsinu þegar guðsþjónusta er í Skt Pauls kirkju hefur verið vinsælt. Ýmsir hópir koma í húsið einu sinni í mánuði, til dæmis er spiluð félagsvist síðasta föstudagskvöld í mánuði, og fyrsta fimmtudag í mánuði hittast handavinnukonur í húsinu. 

Garnaflaekjan

Auk fastra þátta hafa aðrir viðburðir lokkað fólk í húsið. Má til dæmis nefna afar vel sótt bókakvöld með Jóni Kalmanni, tónleika með Jóni Kr Ólafssyni og Ingimari Oddsyni og tónleika með Sólrúnu Bragadóttur. Tvær sýningar voru í sal Jónshúss, teikningar eftir Sigrúnu Eldjárn og ljósmyndasýning Ingu Lísu Middelton sem enn er opin.

IMG_8325

Margir hópar hafa annað hvort fengið afnot af aðstöðunni ellegar að þeir hafa komið í heimsókn og fengið kynningu á starfsemi og sögu hússins. Má hér nefna íslenska nemendur í DTU, heldri borgara og aðra hópa frá Íslandi sem eru á ferð um Kaupmannahöfn, vinnustofur fyrirtækja og stofnana og ýmislegt fleira.

Fullsizeoutput_2ad5

Að sjálfsögðu er síðan töluvert um að Íslendingar komi í húsið til að skoða sýningu um Jón Sigurðsson og Ingibjörgu Einarsdóttir sem er á þriðju hæð hússins.

Jón Sigurðssons skrivebord.

Eftir að bókasafnið var fært í kjallara hússins og haft opið lengur, hefur notkun þess aukist til muna. Skráning hófst á bókum safnsins og skráðar hafa verið yfir níu þúsund bækur og er skráningu ekki lokið enn. Bókasafnið er mjög vinsælt.

Bókasafn

Að síðustu má nefna að 20 fræðimenn hafa dvalið í fræðimannaíbúðum á annarri og fjórðu hæð hússins. Auk þess að sinna fræðimannastörfum héldu tveir þeirra fyrirlestra um rannsóknir sínar; Hjörleifur Stefánsson ræddi um fangelsismál í fyrirlestri sem hét Hegning, hýðing eða betrun, og Hörður Geirsson ljósmyndari ræddi um notkun á votplötum á tölvuöld.

Hörður Geirsson

Jónshús hefur reynt að kynna starfsemi sína á samfélagsmiðlum samanber facebook og Instgram og hefur nú um tvö þúsund fylgjendur á facebook. Segja má að starfsemi hússins sé í miklum blóma og lausleg talning gefur til kynna að fjöldi gesta árið 2017 hafi verið um tíu þúsund sem er um 20% aukning frá árinu á undan. 

Takk fyrir árið 2017 og gleðilegt ár !