• Kvennakórinn í Kaupmannahöfn

2.11.2017

Íslenski Kvennakórinn í Kaupmannahöfn fagnar 20 ára afmæli

Tónleikar verða haldnir á laugardaginn 11. nóvember kl. 16 í Frihavnskirken á Austurbrú. Það er frítt inn, og eru allir velkomnir að koma og hlusta.

Nánar um viðburðinn hér.

Það er alltaf stuð í Jónshúsi í Kaupmannahöfn á mánudagskvöldum. Þá eru tæplega 20 konur í kvennakór að æfa sig undir stjórn Sigríðar Eyþórsdóttur. Í ár erum við í Íslenska Kvennakórnum að fagna því að hafa starfað og sungið saman í 20 ár.


„Það er svo einstakt að þessi kór, sem var stofnaður fyrir 20 árum fyrir íslenskar konur í Köben og nágrenni, skuli enn vera á lífi“ segir ein kórkona. Og ekki bara er hann enn á lífi, heldur er hann á fullu við það að undirbúa stórafmælishátíð sem fara mun fram helgina 10.-11. nóvember næstkomandi. Þá verður boðið upp á skemmtilega dagskrá fyrir núverandi og fyrrverandi kórkonur, ásamt áheyrendum að sjálfsögðu. Kórkonur ætla meðal annars að hittast í söngsmiðju, halda hátíðatónleika í Frihavnskirken á Austurbrú og að þeim loknum, halda alvöru veislu með hátíðarmat, ræðuhöldum og dansi. Heiðursgestir á tónleikunum verða Gísli Magna Sigríðarson söngvari og kórstjóri sem ætlar að taka þátt í tónsmiðju og leika undir á tónleikunum og Ingibjörg Guðjónsdóttir söngkona og kórstjóri, fyrsti stjórnandi kórsins, sem mun taka lagið með okkur.

Kvennakórinn í Kaupmannahöfn

Þessi kór hefur áorkað miklu undanfarin ár og kórkonur upplifað ýmislegt saman. Meðal þess skemmtilegasta sem konur minnast er að taka þátt í kóramótum íslenskra kóra erlendis, sem hafa farið fram í Lundúnum, Lundi, Kaupmannahöfn og víðar; kórferðir til Íslands, Tékklands, Póllands og Þýskalands. Einnig höfum við farið í eftirminnilegar ferðir á dönsku eyjarnar Bornholm og Sejerø.

 

Kórinn var stofnaður árið 1997 af framsæknum íslenskum söngkonum sem vantaði metnaðarfullan kór að syngja í. Það hefur frá upphafi verið á stefnuskrá kórsins að bæta sig, að læra eitthvað nýtt, að flytja ný verk, að syngja á nýjum stöðum á nýjan hátt; að kynna dönum íslenska tónlist og að kenna kórkonum tónlist frá öðrum löndum, sem samin hefur verið eða útsett sérstaklega fyrir kvennaraddir.
Kórinn hefur gefið út einn geisladisk „In Coelo et in Terra“ árið 2008. Diskurinn er tekinn upp í Íslandsferð kórsins þetta árið, í Reykholti í Borgarfirði undir frábærri hljóðstjórn Sigurðar Rúnars Jónssonar (Didda fiðlu).

Þess má til gamans geta að núverandi kórstjóri Kvennakórsins (fra 1999) Sigríður Eyþórsdóttir hefur fengið viðurkenningar fyrir starf sitt við kynningu á íslenskri menningu í Kaupmannahöfn; verðlaun Jóns Sigurðssonar 2014 og Det Danske Ridderkors 2017.

En hvað er það sem heldur okkur við efnið og af hverju nenna konur að syngja í kór? Það eru kórkonur sammála um: Það að syngja í kórnum „jafngildir að fara í heitan pott á köldu, myrku vetrarkvöldi. Maður nær að kúppla sig út og slappa af.“ Það er gott að mæta í góðan félagsskap, það er gaman að syngja saman, og ekki skortir það að geta haldið við íslenskunni í leiðinni.