25.4.2025

Íslenski söfnuðurinn í Danmörku hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2025.

Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í dag, 24. apríl, á sumardaginn fyrsta. Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, setti hátíðina og afhenti Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta. Aðalræðumaður að þessu sinni var Ágúst Óskar Gústafsson heimilislæknir og tónlistarflutning annaðist kórinn Hafnarbræður.

Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2025 hlaut íslenski söfnuðurinn í Kaupmannahöfn og er þetta í annað sinn sem félagasamtök hljóta verðlaunin. Síðast var það árið 2016 þegar Dansk-Islandsk Samfund veitti verðlaununum móttöku. Í rökstuðningi fyrir verðlaunaveitingu þessa árs sagði m.a.: „Að mati forsætisnefndar Alþingis hefur íslenski söfnuðurinn í Danmörku gegnt veigamiklu hlutverki fyrir samfélag Íslendinga á Hafnarslóð um langt árabil, meðal annars með helgihaldi, sálgæslu og þjónustu við íslenska fanga og sjúklinga. Þá hefur söfnuðurinn staðið að aukinni samvinnu við danska söfnuði og með því eflt tengsl Íslands og Danmerkur. Fermingarfræðsla og barnastarf, ásamt messukaffi í Jónshúsi, hefur verið mikilvægur þáttur í félagslífi Íslendinga í Kaupmannahöfn og starfið stuðlað að því að rjúfa félagslega einangrun íbúa í nýju landi. Fyrir það hlýtur Íslenski söfnuðurinn í Danmörku Verðlaun Jóns Sigurðssonar.“

Verðlaunin hafa áður hlotið:

2024: Birgir Thor Møller, kvikmyndafræðingur og menningarmiðlari.

2023: Herdís Steingrímsdóttir hagfræðingur.

2022: Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur.

2021: Auður Hauksdóttir, prófessor emerita.

2020: Böðvar Guðmundsson, rithöfundur, ljóðskáld, leikskáld og fv. kennari.

2019: Vibeke Nørgaard Nielsen, rithöfundur og fv. kennari.

2018: Tryggvi Ólafsson myndlistarmaður.

2017: Annette Lassen rannsóknardósent.

2016: Dansk-Islandsk Samfund.

2015: Sigríður Eyþórsdóttir, tónlistarmaður og kórstjóri.

2014: Bertel Haarder, fyrrverandi menntamálaráðherra Danmerkur.

2013: Erling Blöndal Bengtsson sellóleikari.

2012: Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur og prófessor emeritus.

2011: Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

2010: Søren Langvad, byggingarverkfræðingur og forstjóri.

2009: Erik Skyum-Nielsen, bókmenntafræðingur og þýðandi.

2008: Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.

Alþingi veitir Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta í minningu starfa hans í þágu Íslands og Íslendinga. Þau hlýtur hverju sinni einstaklingur sem hefur unnið verk er tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Þau verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála. Nánari upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar er að finna á vef Jónshúss.