26.4.2013

Erling Blöndal Bengtsson hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2013

Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í dag, 25. apríl, á sumardaginn fyrsta. Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, setti hátíðina og afhenti verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta. Verðlaunin féllu að þessu sinni í hlut Erlings Blöndals Bengtssonar sellóleikara. Erling á að baki langan og farsælan tónlistarferil og hefur lagt mikið af mörkum við að efla tengsl Íslands og Danmerkur á sviði tónlistar.  Stefán, sonur Erlings, tók við verðlaununum fyrir hönd föður síns sem búsettur er í Bandaríkjunum.

Aðalræðumaður á hátíðinni var Uffe Elleman-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur, og gerði hann að umfjöllunarefni stöðu vestnorrænu ríkjanna við nýjar aðstæður.

Verðlaunin hafa áður hlotið:

  • 2012: Pétur M. Jónasson, vatnalíffræðingur og prófessor emeritus.
  • 2011: Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
  • 2010: Søren Langvad byggingarverkfræðingur.
  • 2009: Erik Skyum-Nielsen bókmenntafræðingur.
  • 2008: Guðjón Friðriksson sagnfræðingur.


Skrifstofa Alþingis
25. apríl 2013.