9.11.2015

Gamlar og nýjar myndir

Í gegnum tíðina hefur Jónshús meðal annars gegnt því hlutverki að vera félagsheimili Íslendinga í Kaupmannahöfn. Starfsemin er og hefur verið mjög fjölbreytt. Hér hafa verið haldin dansnámskeið og matreiðslunámskeið, haldnir hafa verið tónleikar, beinar útsendingar hafa verið frá íþórttaviðburðum og margt margt fleira. 

Þó nokkrir fastir liðir eru og hafa lengi verið í húsinu, meðal annars íslenskuskólinn, sunnudagaskólinn, kórastarfsemi, spilakvöld og AA fundir. Hér á árum áður voru starfandi tvö Íslendingafélög, Félag íslenskra námsmanna í Kaupmannahöfn og Íslendingafélagið. Þessi félög höfðu aðsetur í húsinu og sáu fyrir fjölbreyttri dagskrá sem og blaðaútgáfu. Nú er starfandi eitt Íslendingafélag sem heitir Íslendingafélagið í Kaupmannahöfn. Það hefur aðsetur í húsinu og sér fyrir ýmis konar starfsemi, svo sem jólabingói, páskabingói, Þorrablóti og 17. júní fagnaði, svo eitthvað sé nefnt. 

Starfið í húsinu endurspeglar tíðarandann hverju sinni og þeim Íslendingum sem búa í hér í borg. Síðstu vikur hef ég verið að fara í gengum myndasafnið sem er til í húsinu. Myndirnar segja frá og lýsa sumu af því sem hefur átt sér stað í húsinu. Nú verða allar myndirnar skannaðar inn og settar í myndaalbúm á flickr.com svo allir sem áhuga hafa geti skoðað. Megnið af þessum myndum eru hvorki merktar né tímasettar og flokkast einfaldlega sem “gamlar myndir”. Nýju myndirnar eru hins vegar bæði flokkaðar og tímasettar. 

Hér er að finna gamlar og nýjar myndir.