28.4.2010

Verðlaun Jóns Sigurðssonar árið 2010

Søren Langvad byggingarverkfræðingur handhafi verðlaunana

Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannhöfn í dag, sumardaginn fyrsta. Markmiðið með hátíðinni er að heiðra minningu Jóns Sigurðssonar og halda á loft verkum hans og hugsjónum. Stjórn húss Jóns Sigurðssonar hefur umsjón með hátíðinni með fulltingi forseta Alþingis og forsætisnefndar.

Alþingi veitir Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta í minningu starfa hans í þágu Íslands og Íslendinga. Þau hlýtur hverju sinni einstaklingur sem hefur unnið verk er tengjast hugsjónum og störfum Jóns Sigurðssonar. Þessi verk geta verið á sviði fræðistarfa, viðskipta eða mennta- og menningarmála.

Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2010 hlýtur Søren Langvad byggingarverkfræðingur, starfandi stjórnarformaður Pihl og Søn og einn stofnenda og fyrrverandi stjórnarformaður íslenska verktakafyrirtækisins Ístaks.

Søren Langvad hefur stutt dyggilega við útbreiðslu íslenskrar menningar á danskri grund og unnið óeigingjarnt starf í þágu Íslendinga í Kaupmannahöfn, meðal annars sem formaður Dansk-islandsk samfund. Søren hefur verið ötull talsmaður íslenskra hagsmuna og hefur með ævistarfi sínu eflt vináttu milli Íslands og Danmerkur. Fyrir það hlýtur hann Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2010.

Verðlaunin hafa áður hlotið:

2009: Erik Skyum-Nielsen bókmenntafræðingur
2008: Guðjón Friðriksson sagnfræðingur