• Jóladjazz

3.12.2019

Tónleikar - jóladjazz í Jónshúsi

Íslensku jazzsöngkonurnar Stína Ágústsdóttir og Marína Ósk hafa fléttað saman jazzlykkjur sínar og galdrað fram norrænt jólagull!
Í samstarfi við gítarleikarann Mikael Mána Ásmundsson hafa þær útsett og samið íslenska texta við jólalög frá Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Danmörku og Íslandi. Útsetningarnar eru hlustendavænar, hugljúfar og fallegar og draga fram tilfinningu hins norræna veturs á lýsandi og passandi hátt. Í ágúst voru 10 lög tekin upp og nú skal þessari nýju jólaplötu, “Hjörtun okkar jóla”, fagnað með tónleikum í Jónshúsi í Kaupmannahöfn. Leikin verða öll lögin á plötunni auk nokkurra vel valdra vetrargeimsteina!

Stína, Marína og Mikael hafa öll gefið út jazzplötur á íslensku síðustu ár sem hlotið hafa tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna: “Jazz á íslensku” - Stína Ágústs 2016 og “Beint heim” - Marína & Mikael 2017.

Marína Ósk stundar nú mastersnám í jazztónlist við Konunglega Tónlistarháskólann í Stokkhólmi og sendi nýverið frá sér sína fyrstu sólóplötu, Athvarf, sem inniheldur tónlist eftir Marínu á íslensku.

Stína Ágústs kom nýlega fram á Stockholm Jazz Festival ásamt gítarleikaranum Erik Söderlind, ferðaðist til Íslands í október og lék tónleika með bassaleikaranum virta Henrik Linder úr Dirty Loops og vinur nú að næstu sólóplötu.

Mikael Máni sendi frá sér sína fyrstu plötu í sumar, Bobby, sem fengið hefur frábær viðbrögð. Ásamt Mikael leika á plötunni bassaleikarinn reynslumikli Skúli Sverrisson og trommarinn Magnús Trygvason Elíassen, og komu þeir fram á Jazzhátíð Reykjavíkur 2019. “All about jazz” lýsir Mikael: “A thoughtful, deft musician ready to add his voice to the roster of Scandinavians who continue to sculpt a distinctive jazz sound.”