Vibeke Nørgaard Nielsen hlýtur Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta árið 2019
Hátíð Jóns Sigurðssonar var haldin í Jónshúsi í Kaupmannahöfn í dag, 25. apríl, á sumardaginn fyrsta. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, setti hátíðina og afhenti Verðlaun Jóns Sigurðssonar forseta. Aðalræðumaður að þessu sinni var Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis. Ræðu Helga má lesa hér.
Verðlaun Jóns Sigurðssonar 2019 féllu í hlut Vibeke Nørgaard Nielsen, rithöfundar og fyrrverandi kennara. Framlag Vibeke við kynningu á Íslandi og íslenskri menningu í Danmörku með sýningum, kynningum og fyrirlestrum um Ísland um langt árabil er ómetanlegt. Einnig hefur hún skipulagt fjölmargar Íslandsferðir fyrir Dani. Þá er bók hennar um Íslandsferðir danska listmálarans Johannesar Larsens, Listamaður á söguslóðum, sem út kom í Danmörku 2004, og í íslenskri þýðingu 2015, mikilvægt framlag til menningartengsla landanna.